Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki helgarinnar

Avram Grant mætir með Chelsea á Old Trafford á sunnudaginn
Avram Grant mætir með Chelsea á Old Trafford á sunnudaginn NordicPhotos/GettyImages

Keppni í ensku úrvalsdeildinni skiptist jafnt á laugardag og sunnudag þar sem hápunktur helgarinnar verður fyrsti leikur Avram Grant með Chelsea þar sem liðið sækir Manchester United heim á Old Trafford.

Fréttir af skyndilegu brotthvarfi Jose Mourinho frá Stamford Bridge í vikunni hafa í raun varpað skugga á þennan stórleik á sunnudaginn, en það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig Grant tekst til við að berja lið sitt saman fyrir þennan erfiða leik.

Fimm leikir fara fram á laugardag þar sem grannarnir í norðvestrinu Middlesbrough og Sunderland leiða saman hesta sína.

Arsenal situr í efsta sæti deildarinnar og sækir nýliða Derby heim, Liverpool tekur á móti nýliðum Birmingham, Reading tekur á móti Wigan sem verður án Emile Heskey og þá tekur Fulham á móti Manchester City í hádegisleiknum.

Á sunnudaginn fara nokkrir af leikmönnum West Ham á kunnuglegar slóðir þegar liðið sækir Newcastle heim. Everton reynir að rífa sig upp eftir vonbrigðin í Evrópukeppninni með heimsókn til Aston Villa og þá er Blackburn líka að reyna að skafa af sér Evróputimburmenn þar sem það tekur á móti Portsmouth.

Tottenham náði sér heldur á strik í Evrópukeppninni í vikunni með öruggum 6-1 sigri, en ef marka má viðureignir liðanna við Bolton á útivell síðustu ár er hætt við því að liðið komi þar harkalega niður á jörðina.

Rúsínan í pylsuendanum er svo risaslagur Manchester United og Chelsea þar sem United stefnir á enn einn 1-0 sigurinn í röð og gestirnir verða með nýjan stjóra og engan Lampard og engan Drogba.

Laugardagur:

Arsenal - Derby

Arsenal hefur fengið vítaspyrnu í fjórum síðustu leikjum sínum í röð á Emirates og Derby hefur aðeins skorað þrjú mörk í síðustu níu úrvalsdeildarleikjum sínum á útivelli gegn Arsenal.

Fulham - Man City

Fulham hefur kastað frá sér 11 stigum eftir að hafa verið komið í aðstöðu til að vinna leiki á leiktíðinni - meira en nokkurt annað lið. Síðustu fimm leikir Man City í úrvalsdeildinni hafa endað á markatölunni 1-0.

Liverpool - Birmingham

Liverpool hefur bara fengið á sig mörk úr vítaspyrnum það sem af er leiktíðinni og Birmingham hefur enn ekki tekist að skora mark á Anfield í sögu úrvalsdeildarinnar.

Middlesbrough - Sunderland

Middlesbrough hefur skoraði mark í 14 af síðustu 15 leikjum sínum á heimavelli í deildinni. Sunderland hefur mistekist að skora í 5 af síðustu 7 leikjum sínum við Boro í deildinni.

Reading - Wigan

Reading hefur aðeins gert jafntefli í einum af síðustu 19 heimaleikjum sínum í deildinni. Wigan hefur fengið þrjár vítaspyrnur það sem af er tímabilinu -hefur skorað úr þeim öllum - og það voru þrír mismunandi leikmenn sem gerðu það.

Sunnudagur:

Aston Villa - Everton

Villa hefur ekki tapað tveimur leikjum í röð í deildinni á árinu 2007 og Everton hefur aðeins unnið einn leik á Villa Park frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

Blackburn - Portsmouth

Blackburn hefur fengið dæmdar á sig 96 aukaspyrnur í deildinni - mest allra liða - þrátt fyrir að hafa leikið einum leik færra en flest liðin í deildinni. Portsmouth hefur aðeins unnið einn af síðustu 19 útileikjum sínum í deildinni.

Bolton - Tottenham

Sjö af þeim ellefu mörkum sem Bolton hefur fengið á sig í deildinni til þessa hafa verið skoruð með vinstri fæti. Tottenham hefur fengið á sig fimm mörk utan teigs til þessa - sem er mest í deildinni. Liðið fékk líka langflest mörk í deildinni á sig utan teigs á síðustu leiktíð.

Manchester United - Chelsea

United hefur tekið flest skot á markið í deildinni - 87, en aðeins Reading hefur skorað færri mörk í deildinni - 3 mörk alls. Chelsea hefur aðeins mistekist að skora í einum af síðustu 12 leikjum sínum á Old Trafford.

Newcastle - West Ham

Michael Owen hefur skorað 10 mörk í 10 úrvalsdeildarleikjum sínum gegn West Ham á ferlinum. West Ham hefur aldrei unnið fimm leiki í röð á útivelli í úrvalsdeildinni. Newcastle hefur ekki tapað heima á leiktíðinni en West Ham er eina liðið í deildinni sem hefur ekki fengið á sig mark á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×