Enski boltinn

Johnson klikkaði á tveimur vítum

Joleon Lescott skorar fyrir Everton
Joleon Lescott skorar fyrir Everton NordicPhotos/GettyImages

Andy Johnson misnotaði tvær vítaspyrnur í kvöld þegar Everton náði aðeins 1-1 jafntefli við úkraínska liðið Metalist Kharkiv í ótrúlegum leik á Goodison Park. Ljóst er að enska liðið á erfiðan leik fyrir höndum í síðari viðureigninni í Úkraínu þar sem sæti í riðlakeppni Uefa bikarsins verður í húfi.

Varnarmaðurinn Joleon Lescott kom heimamönnum yfir með góðum skalla og gestirnir misstu mann af velli í síðari hálfleiknum. Johnson skoraði úr vítaspyrnu en var látinn endurtaka hana og lét þá verja frá sér. Gestirnir frá Úkraínu náðu að jafna leikinn manni færri og í kjölfarið fékk svo Everton aðra vítaspyrnu - og Kharkiv missti annan leikmann sinn af velli. Johnson tók því þriðju vítaspyrnu sína í leiknum og þrumaði hátt yfir markið.

Leikurinn var eign Everton frá upphafi til enda, en leikmenn liðsins munu eflaust klóra sér í höfðinu í alla nótt yfir því hvernig þeir fóru að því að ná ekki að vinna. Bjarni Þór Viðarsson var í leikmannahópi Everton í kvöld en kom ekki við sögu í leiknum sem sýndur var beint á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×