Enski boltinn

Björgólfur fjármagnaði kaup Rússans í Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson.

The Guardian greinir frá því í morgun að Landsbankinn hafi fjármagnað kaup Rússans Alisher Usmanov á hlutabréfum í Arsenal í vikunni.

Eins og alkunna er á Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, meira en 90% hlut í enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham.

Blaðið segir að útibú Landsbankans í Lundúnum hafi fjármagnað kaup Usmanov á sex prósenta hlut upp á 30 milljónir punda, 3,9 milljarða króna.

Greinarhöfundur veltir því einnig fyrir sér hvort það hafi verið Björgólfur sem kynnti Usmanov fyrir David Dein, fyrrum varastjórnarformanni Arsenal. Usmanov keypti 14,6 prósenta hlut Dein í síðasta mánuði í félaginu en eignarhlutur hans nú nemur nú 21 prósenti. Usmanov er næststærsti hluthafinn í Arsenal.

Björgólfur stofnaði á sínum tíma bjórverksmiðju í Rússlandi sem hann seldi síðar Heineken fyrir 400 milljónir dollara.

Sjá einnig: Usmanov næst stærsti hluthafi Arsenal




Fleiri fréttir

Sjá meira


×