Enski boltinn

Fastir liðir í Norður-Lundúnum

Adebayor fagnar fyrra marki sínu á White Hart Lane í dag
Adebayor fagnar fyrra marki sínu á White Hart Lane í dag NordicPhotos/GettyImages

Tottenham hefur ekki unnið sigur á grönnum sínum í Arsenal á öldinni og á því varð engin breyting í dag þegar Arsenal skellti sér á toppinn með 3-1 útisigri í leik liðanna á White Hart Lane.

Veski landsliðsmaðurinn Gareth Bale hleypti vonarneista í heimamenn um að ná fyrsta sigrinum á Arsenal síðan 1999 þegar hann skoraði fallegt mark beint úr aukaspyrnu eftir 15 mínútna leik. Þannig stóðu leikar í hálfleik, en Arsenal-lðið vaknaði til lífsins í þeim síðari.

Emmanuel Adebayor jafnaði metin fyrir gestina á 65. mínútu leiksins og hinn magnaði Cesc Fabregas kom Arsenal yfir 2-1 þegar hann stormaði upp miðjuna á 80. mínútu og þrumaði boltanum framhjá Paul Robinson í marki Tottenham. Í sókninni á undan bjargaði Gael Clichy á línu frá Dimitar Berbatov og vildu leikmenn Tottenham meina að sá bolti hefði farið inn fyrir marklínuna.

Hafi markið hans Fabregas verið fallegt átti Adebayor eftir að toppa það skömmu síðar. Hann fór illa með nokkur góð færi í leiknum í dag en bætti fyrir það þegar hann skoraði sitt annað mark með viðstöðulausum þrumufleyg í blálokin - skömmu eftir að Arsenal hafði mistekist að skora úr dauðafæri.

Tottenham átti fullt af góðum færum í leiknum en allt kom fyrir ekki og Arsenal heldur en föstu taki á grönnum sínum. Arsenal hefur ekki tapað fyrir Tottenham í 18 leikjum í röð og ekki útlit fyrir að breyting verði á því á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×