Enski boltinn

Redknapp: Megum ekki láta Liverpool spila okkur í hel

Harry Redknapp, stjóri Portsmouth
Harry Redknapp, stjóri Portsmouth NordicPhotos/GettyImages

Harry Redknapp og lærisveinar hans í Portsmouth eiga erfiðan leik fyrir höndum um helgina þegar þeir taka á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Portsmouth náði að leggja Liverpool síðast þegar liðin mættust á Fratton Park og Redknapp vill ólmur endurtaka leikinn.

"Ég er búinn að segja það milljón sinnum. Toppliðin fjögur munu raða sér í fjögur efstu sætin í deildinni - ekki af því þau eru endilega með bestu stjórana - heldur af því þau eru með besta mannskapinn. Ef þú ert með góða leikmenn eru góðar líkur á því að þú náir árangri - þetta eru engir galdrar," sagði Redknapp. Hann ætlar ekki að breyta neinu í leik sinna manna fyrir leik helgarinnar.

"Við munum elta þá, loka þá af og berja á þeim. Þannig spilum við þegar við mætum liðum á borð við Manchester United og Liverpool. Við verðum að vera rosalega grimmir og gera þeim erfitt fyrir, því annars munu þau spila okkur í hel," sagði Redknapp.

"Ég vona að við náum hagstæðum úrslitum í þessum leik. Við náðum að vinna þá hérna í fyrra og þó Liverpool hafi þá ef til vill verið með annað augað á leik í Meistaradeildinni - er þetta frábær sigur eftir sem áður. Það er altaf gott að ná að vinna lið á borð við Liverpool."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×