Enski boltinn

Rússar einblína á veikasta hlekkinn í enska landsliðinu

Paul Robinson, markvörður Englendinga
Paul Robinson, markvörður Englendinga NordicPhotos/GettyImages

Rússnesku landsliðsmennirnir hafa fundið það út að markvörðurinn Paul Robinson sé veikasti hlekkurinn í enska landsliðinu fyrir leik liðanna í undankeppni EM annað kvöld og þeir ætla að nýta sér það.

Robinson hefur verið frekar valtur í sessi bæði með landsliðinu og félagsliði sínu Tottenham, en hefur náð að halda sæti sínu í landsliðinu þrátt fyrir allt. Lærisveinar Guus Hiddink ætla sér að einblína á Robinson á Wembley annað kvöld.

"Robinson er ekki besti leikmaður heims í sinni stöðu, vægt til orða tekið, og við ætlum að nýta okkur það. Við ætlum að reyna að trufla Robinson af því við treystum á sigur gegn Englendingum og vitum að við getum það. Robinson á sér veikar hliðar og við ætlum að reyna að nýta okkur þær til sigurs," sagði leikmaður ársins í Rússlandi - fyrirliðinn Andrei Arshavin.

"Þegar á völlinn er komið gleymum við því að enska liðið sé fullt af súperstjörnum og sem sóknarmaður hef ég meiri áhuga á að finna leiðir fram hjá vörninni þeirra. Þeir eru með mjög þétta varnarlínu, eina þá bestu í Evrópu, en við ættum að komast í gegn um hana því enska liðið virðist hreint ekki vera með mikið sjálfstraust."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×