Enski boltinn

Taylor neitar samningstilboði Newcastle

Steven Taylor nær ekki samningum við Newcastle
Steven Taylor nær ekki samningum við Newcastle NordicPhotos/GettyImages

Varnarmaðurinn Steven Taylor hjá Newcastle hefur hafnað nýju samningstilboði frá félaginu og segir faðir hans og umboðsmaður hann vera mjög vonsvikinn um að vera ekki í meiri metum hjá félaginu. Taylor er 21 árs og er talinn eitt mesta efni sem komið hefur upp í unglingaliði Newcastle í áraraðir.

"Ég vona bara að þetta sé ekki þeirra leið til að losa sig við Steven," sagði Alf faðir hans. "Hann elskar Newcastle og vill ekki fara frá félaginu, en hann er mjög vonsvikinn með þann samning sem honum var boðinn," sagði pabbinn. Taylor var boðinn nýr fimm ára samningur, en stutt er síðan menn á borð við Charles N´Zogbia og James Milner framlengdu samninga sína við félagið.

Samningaviðræður Taylor eru sagðar hafa gengið yfir í sjö mánuði og pabba hans þykir súrt að sonur hans eigi ekki rétt á sömu launum og aðrir leikmenn hjá félaginu. Á meðan leikmenn á borð við Abdoulaye Faye eru sagðir fá um 30,000 pund í vikulaun, er sagt að Taylor hafi ekki vilja fá nema um þriðjung af þeirri upphæð.

"Stuðningsmenn liðsins sjá menn á borð við Albert Luque og Jean-Alain Boumsong koma til félagsins og fá svimandi há laun og þeir hljóta að búast við því að Steven fái svipuð laun. Sú er þó alls ekki raunin. Hann spilar ekki með Newcastle vegna peninganna heldur vegna þess að hann elskar félagið," sagði Alf súr í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×