Enski boltinn

Framherji Derby í fjögurra leikja bann

Craig Fagan verður ekki með liði Derby í næstu fjórum deildarleikjum
Craig Fagan verður ekki með liði Derby í næstu fjórum deildarleikjum NordicPhotos/GettyImages

Craig Fagan, framherji Derby County í ensku úrvalsdeildinni, var í dag dæmdur í fjögurra leikja bann af aganefnd deildarinnar eftir að sýnt þótti að hann hefði viljandi traðkað á Alvaro Arbeloa, leikmanni Liverpool, í leik liðanna um síðustu helgi.

Fagan neitaði ásökunum sambandsins, en aganefndin var ekki sammála því og dæmdi hann í þriggja leikja bann fyrir brotið sjálft og einn leik auka fyrir að neita því sem þótti augljóst viljaverk. Alan Wiley dómari leiksins sagðist ekki hafa séð atvikið í leiknum, en sagðist tvímælalaust hafa vísað framherjanum af velli ef hann hefði séð það.

Fagan mun því missa af leikjum Derby gegn Newcastle heima, Arsenal úti, Bolton heima og Reading á útivelli í deildinni. Hann er 24 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×