Enski boltinn

Geri í buxurnar þegar andstæðingarnir fá hornspyrnu

Martin Jol er staðráðinn í að snúa við gengi Tottenham
Martin Jol er staðráðinn í að snúa við gengi Tottenham NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur sent forráðamönnum félagsins þau skilaboð að hann muni ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Tottenham hefur gengið afleitlega í byrjun leiktíðar og sagt er að félagið hafi verið hársbreidd frá því að ráða Juande Ramos hjá Sevilla í starf hans á dögunum.

Jol er hinsvegar ekki búinn að segja sitt síðasta og talaði til stuðningsmanna Tottenham á sérstökum viðburði í gærkvöldi. "Ég var mjög vonsvikinn þegar þessar fréttir láku út um daginn en ég er búinn að gleyma því. Nú er kominn tími til að horfa fram á við og ég á tvö ár eftir af samningi mínum sem ég ætla að standa við. Félagið losnar ekki svo auðveldlega við mig og ef ég verð ekki á hliðarlínunni í næstu leikjum - verð ég á áhorfendabekkjunum sem stuðningsmaður. Þannig maður er ég bara."

Honum finnst hann enn njóta stuðnings áhangenda Tottenham og skorar á stjórnina að gleyma því ekki. "Ég var vanur að veifa til áhorfenda þegar þeir sungu nafn mitt á heimaleikjunum, en nú leyfi ég þeim að syngja aðeins lengur svo stjórnin heyri örugglega hvað stuðningsmönnum liðsins finnst," sagði Jol.

Hann viðurkennir engu að síður að byrjun liðsins í deildinni sé langt undir væntingum. "Ég er við það að drulla á mig í hvert sinn sem eitthvað lið fær hornspyrnu á móti okkur en við erum að vinna í því að verjast föstum leikatriðum tvisvar í viku núna, svo að það fer vonandi að lagast. Við verðum að fara að laga leik okkar og mér líður ömurlega að vera aðeins kominn með einn sigur í fyrstu fimm leikjunum," sagði Jol í samtali við Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×