Enski boltinn

Ballack hefði frekar átt að fara til United

NordicPhotos/GettyImages

Frans Beckebauer, forseti Bayern Munchen, gagnrýnir harðlega þá ákvörðun landa síns Michael Ballack að ganga í raðir Chelsea á Englandi og segir að hann hefði frekar átt að fara til Manchester United.

Ballack hefur ekki náð sér sérlega vel á strik síðan hann kom til Chelsea og spilaði bara 26 leiki í deildinni á síðustu leiktíð þegar liðið missti af titlinum í hendur United.

"Ég held að það hafi verið vitleysa hjá honum að fara til Chelsea þegar pláss var fyrir hann hjá Manchester United þar sem hann hefði smellpassaði inn í leikstíl liðsins. Það sama má segja um Real Madrid, hann hefði veri fínn þar - en hjá Chelsea var þegar fyrir Frank Lampard sem er alveg eins leikmaður," sagði Keisarinn í samtali við Bild í Þýskalandi. Hann útilokar að Ballack snúi aftur til Bayern.

"Hvert á Ballack að fara núna? Það er stór spurning. Real hefur varla áhuga á að fá hann núna eftir að félagið fékk þá Sneijder og Robben til liðs við sig. Og ekki kemur hann til Bayern aftur. Hann hefur engan áhuga á því og svo held ég að við höfum engin efni á að borga honum laun," sagði Beckenbauer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×