Enski boltinn

Stjórnarformaður Derby fær haturspóst

Derby hefur byrjað afleitlega í ensku úrvalsdeildinni og fátt annað en fall virðist blasa við eins og staðan er í dag
Derby hefur byrjað afleitlega í ensku úrvalsdeildinni og fátt annað en fall virðist blasa við eins og staðan er í dag NordicPhotos/GettyImages

Peter Gadsby, stjórnarformaður nýliða Derby County í ensku úrvalsdeildinni, hefur upplýst að hann hafi fengið talsvert magn af haturspósti frá stuðningsmönnum félagsins á leiktíðinni. Stuðningsmönnum liðsins þykir formaðurinn halda að sér höndum á leikmannamarkaðnum og eru skiljanlega ósáttir við lélega byrjun liðsins í deildinni.

Derby tapaði 6-0 fyrir Liverpool í síðustu umferð og er í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með aðeins eitt stig og tólf mörk í mínus. Derby var í miklum fjárhagskröggum fyrir aðeins 16 mánuðum síðan en þá tók hópur fjárfesta undir stjórn Gadsby við félaginu. Það komst síðan mjög óvænt upp í úrvalsdeildina í gegn um umspil í vor.

Knattspyrnustjórinn Billy Davies hefur ítrekað að félagið þurfi að kaupa fleiri leikmenn til að eiga minnstu von um að halda sæti sínu í deildinni, en stjórnin hefur ekki orðið við þeirri beiðni. Aðeins einn leikmaður var keyptur til félagsins áður en félagaskiptaglugginn lokaðist í sumar og nú hefur stjórnarformaðurinn greint frá viðbrögðum stuðningsmanna liðsins.

"Því miður geta þessi bréf orðið ansi persónuleg og ég get ekki neitað því að það hefur áhrif á mig. Það er mjög leiðinlegt þegar maður eyðir tíma og fjármagni í að byggja félagið upp að fá svona bréf, því maður hefur á tilfinningunni að maður hafi gert sitt besta. Þetta er líklega partur af starfinu," sagði Gadsby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×