Enski boltinn

Wenger reiknar með að skrifa undir í vikulok

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist reikna með að skrifa undir nýjan samning við félagið á fimmtudag eða föstudag. Wenger hefur verið hjá Arsenal síðan árið 1996 en núverandi samningur hans rennur út í lok yfirstandandi leiktíðar.

Fjölmiðlar á Englandi hafa gert því skóna á undanförnum mánuðum að Wenger fari frá Arsenal eftir að samstarfsmaður David Dein hætti hjá félaginu í sumar. Wenger segist þó bjartsýnn á að ná samningum við Arsenal í vikulok - hann sé spenntur að halda áfram að byggja upp ungt lið á Emirates.

"Ég er enn spenntur fyrir því að halda áfram og mér ber skylda til þess að halda áfram að byggja upp lið þessara ungu leikmanna sem ég er búinn að fá til félagsins. Ég er í viðræðum við félagið um þessar mundir og ég á ekki von á því að slitni upp úr þeim. Ætli við verðum ekki með fréttir af þessu á fimmtudag eða föstudag," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×