Enski boltinn

Leikmaður 5. umferðar: Xabi Alonso

Alonso var frábær í stórsigri Liverpool á Derby um helgina og skoraði tvö mörk
Alonso var frábær í stórsigri Liverpool á Derby um helgina og skoraði tvö mörk NordicPhotos/GettyImages

Spænski miðjumaðurinn Xabi Alonso er leikmaður fimmtu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Alonso tók upp hanskann fyrir Steven Gerrard um helgina þegar Liverpool valtaði yfir nýliða Derby County 6-0 og skoraði tvö mörk í leiknum.

Liverpool mætti Derby á heimavelli um helgina og var liðið án lykilmannanna Steven Gerrard og Jamie Carragher. Það kom þó ekki að sök gegn slökum nýliðunum, sem virðast eiga langa leiktíð fyrir höndum ef marka má fyrstu leikina í haust. Flestir leikmenn Liverpool áttu frábæran dag, en það var Alonso sem fór fyrir liðinu með frábærri frammistöðu á miðjunni.

Alonso er ekki vanur að blanda sér í hóp markaskorara hjá Liverpool, en hann opnaði markareikning liðsins með því að skora fyrsta markið úr aukaspyrnu af hátt í 40 metra færi. Hafi verið heppnisstimpill yfir fyrra markinu, var ekkert slíkt uppi á teningnum þegar hann skoraði fjórða mark liðsins með hnitmiðuðu skoti. Enskir fjölmiðlar voru á einu máli um að Alonso hafi verið í sérflokki á miðjunni í sterku liði Liverpool um helgina, þar sem hann stýrði hraðanum í leiknum og átti frábærar sendingar.

Ljóst er að Spánverjinn fær öfluga samkeppni um stöðu í liði Liverpool í vetur þar sem einvalalið miðjumanna er í hópi Rafa Benitez, en Alonso sýndi það um helgina að landi hans mun ekki gleyma honum í bráð þegar hann velur byrjunarlið sitt.

Nafn: Xabier Alonso Olano

Fæddur: Tolosa á Spáni, 25 nóvember 1981

Félög: Real Sociedad, Eibar (lánsmaður), Liverpool

Númer: 14




Fleiri fréttir

Sjá meira


×