Innlent

Afplánaði stuttan dóm á Litla-Hrauni

MYND/Heiða
Tuttugu og tveggja ára karlmaður, sem fannst látinn í klefa sínum í fangelsinu að Litla-Hrauni í fyrrinótt, svipti sig lífi. Þetta staðfestir Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar, við Vísi. Hann segir manninn hafa verið nýkominn inn og hafa átt að afplána stuttan dóm.

Maðurinn var við fulla heilsu þegar klefum fanganna var lokað kvöldið áður en var látinn þegar fangaverðir opnuðu klefann í eftirlitsferð um fangelsið um nóttina.

Að sögn Valtýs höfðu hvorki fangar né fangaverðir tekið eftir neinu í hegðun mannsins sem benti til þess að hann væri í sjálfsvígshugleiðingum. Maðurinn hefði hafið afplánun í júlí síðastliðnum og um hafi verið að ræða nokkurra mánaða dóm.

Aðspurður segir Valtýr andlátið hafi fengið á bæði starfsfólk fangelsins og fanga en maðurinn var einn í klefa. Farið hafi verið yfir vinnubrögð í fangelsinu og ekkert bendi til þess að mistök hafi átt sér stað. Lögreglan á Selfossi rannsaki málið þó áfram.

Valtýr segir sem betur fer ekki algengt að fangar svipti sig lífi í íslenskum fangelsum. „Það er vel fylgst með mönnum og við reynum að þjálfa fólk í að greina hvort hætta sé á menn grípi til slíks," segir Valtýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×