Bryan Robson, framkvæmdastjóri Sheffield United, er vongóður um að framherjinn James Beattie samþykki að ganga til liðs við Sheffield frá Everton eftir að samingsviðræður þeirra á milli áttu sér stað. Liðin hafa samþykkt kaupverð á kappanum, en Everton er talið fá um fjórar milljónir punda fyrir framherjann.
„Samningviðræður hafa gengið vel. Mig vantar leikmenn," sagði Robson á heimasíðu Sheffield. „Vonandi getum við gengið frá þessu á næstu tveim sólarhringum."
Beattie kom til Everton frá Southampton árið 2005 fyrir sex milljónir punda. Hann hefur aðeins skorað 13 mörk í 76 leikjum fyrir Everton.