Innlent

NATO þotur sinna eftirliti í lofthelgi Íslands

Sighvatur Jónsson skrifar

Orrustuflugvélar á vegum Atlantshafsbandalagsins munu sinna reglubundnu eftirliti um lofthelgi Íslands, samkvæmt samkomulagi sem samþykkt hefur verið í fastaráði NATO. Fjórum sinnum á ári munu þotur bandalagsríkja fljúga hér eftirlitsferðir á kostnað ríkjanna sjálfra. Forsenda eftirlitsflugsins eru ratsjárstöðvarnar fjórar hér á landi, sem Íslendingar munu bera allan kostnað af.

Geir Haarde forsætisráðherra setti málið sjálfur af stað á leiðtogafundi NATO í nóvember í fyrra, í kjölfar þess að bandaríska varnarliðið yfirgaf Ísland.

Samkomulagið felur í sér að fjórum sinnum á ári verða sendar orrustuflugvélar frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins til eftirlits íslensku lofthelginnar. Forsenda þess að hægt sé að halda úti slíku eftirlitsflugi er hið svokallaða íslenska loftvarnarkerfi - fjórar ratsjárstöðvar sem staðsettar eru á Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi.

Byggingarkostnaður ratsjárstöðvanna var einmitt greiddur af NATO á sínum tíma, en reksturinn var í höndum bandaríska flughersins þar til hann fór af landi brott.

Kostnaðurinn af ratsjárstöðvunum nú mun hins vegar að verulegu leyti falla á Ísland ásamt kostnaði við aðstöðu á öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli. Íslendingar greiða þannig fyrir húsnæði og gistingu flugmanna og tæknilega aðstoð á flugvellinum - en viðkomandi NATO-ríki munu bera kostnað af sjálfu fluginu.

Forsætisráðherra segir að nokkur bandalagsríki hafi sýnt áhuga á lofteftirliti við Ísland, en telur ótímabært að nefna þau nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×