Innlent

Vilja æfa lágflug yfir hálendi Íslands

Beiðni um heimild til lágflugs á varnaræfingunni Norður víkingur mun berast Flugmálastjórn á næstunni en lágflugsæfingar á þessum árstíma falla ekki undir almennar reglur um heræfingar. Erfitt gæti reynst fyrir Flugmálastjórn að heimila æfingarnar þar sem Flugmálastjórn ber að vernda hagsmuni almennings og umferð ferðamanna um landið er mikil á þessum tíma.

Æfingarnar sem eru þær viðamestu frá því Bandaríski herinn fór fara fram hér á landi 13.-16. ágúst næstkomandi. Í þeim taka þátt um 300 manns, 13 flugvélar, þyrlur og eftirlitsskip og skiptist æfingin í tvo þætti, loftvarnaræfingu og æfingu gegn hermdar og hryðjuverkum. Þrjár F-15 orrustuvélar og tvær F-16 orustuvélar munu taka þátt í æfingunni og munu þær meðal annars æfa lágflug yfir Íslandi og fara æfingarnar fram í samráði við Flugstoðir.

Arnór Sigurjónsson, sendifulltrúi og stjórnandi æfinganna staðfesti við fréttastsofu í dag að búið væri að senda inn beiðni til Samgönguráðuneytisins og Flugmálastjórnar um frávik frá reglum um lágflug. Nú væri beðið eftir því að hún yrði afgreidd og ef Flugmálastjórn veitir heimildina þá verður farið í að kynna málið.

Ef af yrði þá er aðaðllega um að ræða lágflug yfir hálendi Íslands, yfir stöðum eins og Sprengisandi, Hofsjökli og Vatnajökli. Á þessum tíma árs eru margir ferðamenn á ferð um landið og þess vegna hefur ekki verið heimilt að fljúga lágflug yfir sumartímann.

Flugmálastjórn er því vandi á höndum en margir sem starfa við ferðaþjónustu eru alfarið á móti slíku lágflugi. Þá ber flugmálastjórn að hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi þegar slíkar beiðnir eru afgreiddar og tekur oftast talsverðan tíma að fara yfir málin til að vega og meta umfang flugsins.

Í samtali við fréttastofu í dag sagði flugmálastjóri, Pétur K. Maack, ekki geta tjáð sig um málið þar sem undanþágubeiðnin hefði enn ekki borist Flugmálastjórn.

Þegar haft var samband við Þóri Garðarsson, sem situr í ferðaskrifstofunefnd Samtaka Ferðaþjónustunnar, í dag sagði hann lágflug með tilheyrandi hávaða engan veginn fara vel saman við ferðaþjónustu og varaði eindregið við slíku.

Það er því ljóst að æfingarnar eru umdeildar, ekki aðeins vegna þessa heldur hafa hernaðarandstæðingar jafnframt gagnrýnt þær og sagt þær staðfesta hlutverk Íslands sem lítils Nató-peðs sem bandaríkjamenn geti treyst á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×