Enski boltinn

Úrvalsdeildin hótar West Ham

NordicPhotos/GettyImages

Breska sjónvarpið greinir frá því í morgun að enska úrvalsdeildin hafi nú hótað West Ham frekari refsingu í máli Carlos Tevez ef félagið fær ekki hverja einustu krónu af kaupverðinu - verði hann seldur til Manchester United.

Viðskiptajöfurinn Kia Joorabchian heldur því fram að hann eigi enn réttinn á framherjanum, en úrvalsdeildin segir að West Ham eigi að vera búið að tryggja sér réttinn á leikmanninum og eigi því að fá peninginn fyrir hann ef hann verður seldur.

Mikið þref stóð um mál Tevez á sínum tíma þegar West Ham greindi úrvalsdeildinni ekki frá því að félagið hefði gert samning við fyrirtæki Joorabchian þegar það keypti Argentínumennina Tevez og Javier Mascherano. West Ham var sektað um 5,5 milljónir punda í kjölfarið og Tevez mátti ekki leika með liðinu fyrr en West Ham væri búið að tryggja sér reglubundinn samning við hann. Félagið sleit þá samningi sínum við Joorabchian og Tevez fékk að spila - En Joorabchian hefur nú haldið því fram að samningi þessum hafi aldrei verið rift.

Enska úrvalsdeildin segir að ef Tevez verði seldur nú, megi enginn annar koma að viðskiptunum nema United og West Ham. Tevez hefur þegar ritað úrvalsdeildinni bréf þar sem hann fer þess á leit að samningur hans við West Ham verði gerður ógildur, en því hefur verið neitað. Nú er svo komið að Alþjóða Knattspyrnusambandið er að gera sig líklegt til að skerast í leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×