Enski boltinn

Carragher ver ákvörðun sína

NordicPhotos/GettyImages

Varnarmaðurinn Jamie Carragher hjá Liverpool brást illa við í útvarpsviðtali í gær þegar hann var spurður hvort hann hefði hætt í landsliðinu af því hann væri búinn að gefast upp á að berjast fyrir sæti sínu. Hann segist hafa þurft að spila út úr stöðu meira og minna allan landsliðsferilinn.

"Ég vil ekki vera kallaður auli í beinni útsendingu í útvarpi í eyrum þúsunda hlustenda," sagði Carragher argur í viðtali við Talksport. "Ég hef barist fyrir sæti mínu í landsliðinu síðustu 8 árin. Það eina sem ég get gert er að spila vel fyrir Liverpool. Ég hef aldrei verið sérstaklega góður með enska landsliðinu því þar er ég oft látinn spila út úr stöðu í bakverðinum," sagði varnarmaðurinn og segist ekki sjá það að hann fái að sanna sig úr þessu.

"Þjálfarinn hefur valið ýmsa leikmenn í miðvörðinn á undan mér en menn hafa misjafnar skoðanir. Þessir menn eru yngri en ég og eiga eftir að bæta sig, en ég á ekki eftir að gera mikið af því nú þegar ég er orðinn 29 ára gamall. Ég hef greinilega ekki sannað mig nógu mikið og það breytist varla úr þessu. Ákvörðun mín er ekki 100% örugg enn, því ég á eftir að tala við þjálfarann, en ég hallast að því að hætta með landsliðinu," sagði Carragher sem á að baki 34 landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×