Enski boltinn

Gallas sakar Arsenal um metnaðarleysi

William Gallas sakar forráðamenn Arsenal um metnaðarleysi
William Gallas sakar forráðamenn Arsenal um metnaðarleysi NordicPhotos/GettyImages

Franski varnarmaðurinn William Gallas hefur látið í ljós óánægju sína með störf forráðamanna Arsenal og sakar þá um metnaðarleysi í leikmannamálum. Gallas átti ekki sérlega góða leiktíð með Arsenal í fyrra eftir að hann kom frá Chelsea og er harðorður í garð vinnuveitenda sinna eftir söluna á Thierry Henry.

"Það er ljóst að nokkrir leikmanna liðsins setja stór spurningamerki við framtíð félagsins," sagði Gallas í viðtali á eigin heimasíðu. "Liðin í kring um okkur eru öll að styrkja sig verulega, en hvað er Arsenal að gera til að bregðast við brottför Thierry Henry? Ég er ekki hjá Arsenal til að berjast um þriðja sætið í deildinni og það er nauðsynlegt að fá nýja leikmenn hingað því tímabilið er langt og menn ná ekki árangri á eintómun ungum og efnilegum leikmönnum. Ungu leikmennina þyrstir í sigra, en menn verða að kaupa leikmenn ef þeir ætla að berjast um titla," sagði Gallas, sem ætlar sér að funda með forráðamönnum Arsenal þegar hann mætir aftur til æfinga.

"Ég mun ræða við Arsene Wenger og stjórnina til að komast að því hvað félagið ætlar sér að gera á næsta tímabili og hvort menn ætla að styrkja liðið. Í dag er ég leikmaður Arsenal en ég veit ekki hvað gerist í framtíðinni. Hlutirnir geta verið fljótir að gerast í knattspyrnuheiminum," sagði varnarmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×