Enski boltinn

Anelka ætlar að vera áfram hjá Bolton

NordicPhotos/GettyImages

Franski framherjinn Nicolas Anelka hefur lofað að vera áfram hjá Bolton í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa átt fund með knattspyrnustjóranum Sammy Lee. Hinn 28 ára gamli framherji hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í marga mánuði, en segist nú ekki vera á förum.

"Mikið hefur verið rætt um framtíð mína en ég get fullyrt að ég er ánægður á Englandi og með Bolton. Þetta er frábært félag sem ætlar sér stóra hluti," sagði Anelka. "Ég ræddi við Sammy Lee um helgina og hann er búinn að segja mér hvað hann ætlar að gera með liðið á næstu leiktíð. Ég er hrifinn af hugmyndum hans og hlakka til að starfa með honum."

Lee veit að Anelka vill fyrst og fremst spila með liði sem leikur í Meistaradeildinni og leikmaðurinn hefur eftir stjóra sínum að hann megi fara frá félaginu ef ekki þokar í rétta átt í þeim málum hjá Bolton.

"Nicolas vill spila með Bolton og við ætlum okkur stóra hluti. Ef við náum ekki markmiðum okkar, skil ég ef hann vill fara annað og við munum þá ekki standa í vegi fyrir því ef við fáum sæmilegt tilboð í hann," sagði stjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×