Enski boltinn

Carragher að hætta með landsliðinu?

NordicPhotos/GettyImages

Breska blaðið Mail on Sunday greinir frá því í dag að varnarmaðurinn Jamie Carragher hjá Liverpool hafi ákveðið að hætta að leika með enska landsliðinu í kjölfar þess að Steve McClaren valdi hann ekki í hóp sinn fyrir leikinn gegn Eistum á dögunum.

Blaðið hefur eftir heimildamanni sínum sem sagður er þekkja leikmanninn að hann vilji ekki láta í það skína að hann sé of góður fyrir landsliðið - en að tími sé kominn fyrir hann að einbeita sér algjörlega á að spila fyrir Liverpool. Carragher er 29 ára gamall og hefur spilað 34 landsleiki fyrir England, en hann hefur aðeins fimm sinnum verið í byrjunarliðinu í tíð McClaren.

Carragher fékk ekki sæti í liðinu gegn Eistum þó Rio Ferdinand væri meiddur og McClaren kallaði á Wes Brown í stöðu hægri bakvarðar í stað Carragher í fjarveru Gary Neville - og meiðslakálfinn Ledley King hjá Tottenham í stað Ferdinand. Carragher hefur leikið einstaklega vel með félagsliði sínu undanfarin ár, en hefur aldrei náð að vinna sér fast sæti í landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×