Enski boltinn

Tevez hefur lofað Ferguson að fara til United

NordicPhotos/GettyImages

Argentínumaðurinn Carlos Tevez hjá West Ham hefur lofað Sir Alex Ferguson að hann muni ganga í raðir Manchester United og ætlar að gera allt sem í valdi hans stendur til að af félagaskiptunum verði. Hann segist vilja fara frá West Ham því félagið hafi ekki vilja hafa hann áfram.

"Ég hef lofað herra Ferguson að ganga í raðir United og bakhjarlar mínir hafa sagt honum að ég verði leikmaður United á næsta tímabili. Þegar ég er búinn að lofa einhverju, er ég ekki vanur að svíkja það. Það er ekki einn einasti leikmaður sem myndi afþakka tækifæri til að ganga í raðir svona liðs og samningaviðræðurnar eru komnar of langt á veg svo hægt sé að bakka út úr þeim núna. Ég hef verið hreinskilinn við West Ham allan tímann og ég vona að stuðningsmennirnir skilji mína afstöðu," sagði Tevez og sagðist hafa ákveðið að fara frá West Ham eftir að honum var ekki boðið að vera áfram hjá félaginu.

"Fulltrúar mínir settust niður með forráðamönnum West Ham í lok tímabilsins og þá varð það ljóst að þeir ætluðu ekki að semja við mig. Þeir gáfu mér leyfi til að ræða við önnur félög og því kemur það mér á óvart að skuli vera svona læti yfir þessu núna," sagði Tevez í samtali við People á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×