Enski boltinn

Chelsea búið að bjóða í Pato

Pato er kallaður "Öndin" í höfuðið á fæðingarstað sínum í Brasilíu
Pato er kallaður "Öndin" í höfuðið á fæðingarstað sínum í Brasilíu AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur gert formlegt kauptilboð í brasilíska ungstirnið Alexandre Pato hjá Internacional í Brasilíu ef marka má umboðsmann leikmannsins. Real Madrid, Inter og AC Milan eru einnig sögð hafa mikinn áhuga á honum og segir umboðsmaðurinn þau öll hafa gert tilboð í hann.

Pato er nú í Kanada þar sem hann hefur farið á kostum með U-20 ára liði Brassa á HM. Hann skoraði tvö marka Brasilíumanna í 3-2 sigri þeirra á Suður-Kóreu og er sagður einn besti maður keppninnar. Gríðarlegur fjöldi útsendara er sagður fylgjast með Pato á mótinu. Tilboð Chelsea í þennan 17 ára gamla pilt er talið vera um 10 milljónir punda en þó það tilboð yrði samþykkt, er hætt við því að erfitt verði fyrir félagið að fá atvinnuleyfi fyrir leikmanninn á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×