Enski boltinn

Tottenham kaupir Kaboul á 8 milljónir punda

AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham gekk í morgun frá kaupum á varnarmanninum Younes Kaboul frá Auxerre í Frakklandi. Kaboul er fyrirliði U-21 árs landsliðs Frakka og hafði verið orðaður við lið eins og Roma, Inter og Portsmouth. Hann er almennt álitinn efnilegasti varnarmaður í Frakklandi og hefur verið fyrirliði allra yngri landsliðanna þar í landi.

"Younes er með kraft, hraða, boltatækni og er sterkur í loftinu. Hann er leiðtogi á velli og sýndi mikinn áhuga á að koma hingað þrátt fyrir áhuga annara liða og persónuleiki hans féll okkur vel í geð. Hann er búinn að vera fastamaður í Auxerre í tvö tímabil og er því mikill fengur fyrir okkur," sagði Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Tottenham.

Tottenham hefur verið iðið við kolann á leikmannamarkaðnum í sumar og hefur þegar eytt 10 milljónum punda í Gareth Bale, 16,5 milljónum í Darren Bent og nú 8 milljónum í Kaboul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×