Innlent

Eldur um borð í lúxussnekkju á Viðeyjarsundi

Eldur kom upp í Eldingunni 2, 30 tonna lúxussnekkju, sem gerð er út frá Ægisgarði í Reykjavík nú rétt fyrir hádegi. Einn maður var um borð en verið var að lóðsa bátinn yfir í Sundahöfn í viðhald. Hann sakaði ekki.

Maðurinn kallaði eftir aðstoð um klukkan 11.45 og fóru björgunarbátur og þyrla Landhelgisgæslunnar til móts við bátinn. Maðurinn var hífður um borð í þyrluna en nálægur fiskibátur, Rún RE, tók bátinn í tog til hafnar. Hafnsögubátur með slökkviliðsmenn fór á móti og slökktu þeir eldinn sem var lítill.

Við eldsvoðann kom leki að bátnum og er nú unnið við að dæla úr honum. Báturinn er við Ægisgarð í Reykjavík og er búið að koma upp miklum dælubúnaði þar til að halda bátnum á floti.

Skammt er stórra högga á milli því í síðustu viku kviknaði í Hafsúlunni, hvalaskoðunarbát í eigu sömu útgerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×