Innlent

Þurrviðrið kallar á að fólk vökvi garðana sína

Þurrviðrið undanfarnar vikur kallar á að fólk vökvi garðana sína oftar en venjulega, segir garðyrkjufræðingur. Garðeigendur í borginni segjast sjaldan hafa þurft að vökva eins mikið og núna.

Úrkoma í júní mánuði hefur verið lítil sem engin um land allt og má víða sjá skraufþurran gróður í görðum borgarinnnar, á umferðareyjum, túnum og engjum. Guðmundur Vernharðsson garðyrkjufræðingur segir þurrkana hafa verið óvenju mikla í júní. Hann segir nýgræðinga, ýmist blóm eða tré þurfa mest á vökvun að halda.

Eldri garða þurfi síður að vökva en graslóðir þar sem nýbúið sé að tyrfa þurfi að væta vel. Hann ráðleggur fólki að vökva garðana sína vel tvisvar í viku til að koma í veg fyrir að gróðurinn skemmist.

Auður Jónsdóttir íbúi í Stjörnugróf í Reykjavík segir júní mánuð í fyrra hafa verið miklu blautari en í ár og lítið hafi þurft að vökva garðinn en nú sé annað uppi á teningnum. Hún hefur þurft að vökva garðinn sinn tvisvar á dag undanfarnar vikur og segir þurrkana mest bitna á blómunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×