Íslenski boltinn

Enn tapar KR

HK-menn höfðu góða ástæðu til að fagna í kvöld
HK-menn höfðu góða ástæðu til að fagna í kvöld Mynd/Daniel

KR-ingar sitja enn fastir á botni Landsbankadeildar karla eftir að liðið tapaði 2-0 fyrir nýliðum HK í Kópavogi í kvöld. Keflvíkingar unnu góðan 2-1 útisigur á Víkingi þar sem Guðmundur Steinarsson skoraði sigurmark Keflvíkinga úr vítaspyrnu þegar rúmar 2 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Jón Þorgrímur Stefánsson kom HK yfir gegn KR eftir rúmlega hálftíma leik á Kópavogsvelli og hinn danski Oliver Jaeger innsiglaði sigur liðsins þegar 20 mínútur lifðu leiks. KR-ingar fengu fjölda færa í leiknum en lánleysi liðsins virðist algjört um þessar mundir.

Mikil dramatík var á Víkingsvelli þar sem Keflvíkingar stálu öllum stigunum í blálokin. Þórarinn Kristjánsson kom Keflvíkingum á bragðið þegar hann skoraði eftir aðeins hálfa mínútu í síðari hálfleik. Sinisa Kekic jafnaði metin fyrir Víking úr vítaspyrnu á 73. mínútu en lét reka sig af velli skömmu síðar. Það var svo Guðmundur Steinarsson sem skoraði sigurmark Keflvíkinga úr vítaspyrnu þegar um tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×