Innlent

Grænlenskum þingmönnum meinað að lenda á Húsavík

Flugvélin fékk ekki að lenda.
Flugvélin fékk ekki að lenda. MYND/Ingólfur

Flugvél með fulltrúum grænlenska þjóðþingsins innanborðs var snúið fyrirvaralaust frá lendingu á Húsavíkurflugvelli fyrir skemmstu og henni gert að lenda Akureyrarflugvelli til að fara í gegnum tollskoðun. Sérstök opinber móttökunefnd var mætt á Húsavíkurflugvöll til að taka móti þingmönnunum og kom það henni verulega á óvart þegar vélinni var snúið til Akureyrar.

Grænlensku þingmennirnir voru að koma til Húsavíkur vegna þings Vestnorræna ráðsins sem hefst á Húsavík í dag en um borð var einnig Jonathan Motzfeldt, formaður ráðsins.

Þórður Þórarinsson, starfsmaður Vestnorræna ráðsins, sagði í samtali við Vísi þetta hafi komið mönnum verulega á óvart. „Alþingi Íslands og þjóðþing Grænlands stóð í þeirri trú að vélin fengi að lenda á Húsavík."

Að sögn Þórðar var búið að tilkynna flugið með fyrirvara og höfðu lögregluyfirvöld staðfest að vélin fengi að lenda á Húsavík þar sem hún yrði tollskoðuð. Rétt tæpum klukkutíma fyrir lendingu var vélinni hins vegar fyrirvaralaust gert að lenda á Akureyrarflugvelli til að fara í gegnum tollskoðun þar.

Sérstök móttökunefnd frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var mætt á Húsavíkurflugvöll til að taka móti þingmönnunum og formanni ráðsins en hún þurfti frá að snúa eftir að ljóst varð að vélin fengi ekki að lenda.

Talið er að dagskrá ráðstefnunnar tefjist eitthvað sökum þessa.

Ekki náðist tollayfirvöld á Akureyri vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×