Innlent

Orkuveitan styrkir umhverfis- og orkurannsóknir

Tvö loftslagsverkefni fá hæstu styrki úr Umhverfis og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta skipti í dag.

 

 

Tilkynnt var hvaða rannsóknir nytu styrkja úr sjóðnum við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Sérstakur gestur við athöfnina var Jefferson W. Tester, prófessor við M.I.T. háskólann í Boston, en hann er einn fremsti sérfræðingur Bandaríkjanna á sviði endurnýjanlegrar orkuöflunar og þá sérstaklega jarðhita.

 

Verkefnin tvö nutu sérstöðu í ýmsu tilliti. Um er að ræða afar framsæknar hugmyndir varðandi meðferð gróðurhúsalofttegunda. Báðar rannsóknirnar leiða virtir fræðimenn og kunna þær að leiða til mikilsverðrar vísindalegrar þekkingarsköpunar á heimsvísu. Aðild að rannsóknunum eiga einhverjir fremstu fræðimenn veraldar. Báðar rannsóknirnar krefjast talsverðrar aðstöðusköpunar á athafnasvæðum Orkuveitu Reykjavíkur og er framgangur þeirra verulega tengdur starfsemi fyrirtækisins á svæðunum.

 

 

Sjóðurinn var stofnaður síðastliðið haust af Orkuveitu Reykjavíkur með aðild háskólanna sjö á veitusvæði fyrirtækisins. Hafði hann 100 milljónir króna til ráðstöfunar á fyrsta starfsári sínu. Tæpur fjórðungur þeirrar upphæðar rann til verkefnanna tveggja, eða 21,4 milljónir og skiptist afgangur fjárins á milli 38 verkefna á sviði umhverfis- og orkurannsókna.

 

 

Verkefnin sem njóta styrkja eru afar margvísleg og ná til fjölda fræðisviða, allt frá uppeldis- og kennslufræði til nanótækni. Flest hinna styrktu verkefna eru á sviði verkfræði og jarðfræði. Í stefnu sjóðsins er sérstaklega hvatt til þverfaglegra verkefna, sem oft eru undir hatti umhverfisfræða, og er talsverður fjöldi þeirra einnig styrktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×