Innlent

X hvað?

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Fyrir þá sem eru í vafa um hvað þeir eigi að kjósa næstkomandi laugardag er hjálp á næsta leiti. Nemendur við viðskiptaháskólann á Bifröst hafa sett saman gagnvirka stjórnmálakönnun sem segir fólki hvaða stjórnmálaflokkur samræmist skoðunum þeirra mest.

Við gerð könnunarinnar studdust nemarnir við stefnuskrár og ályktanir af flokksþingum. í skýrslu sem fylgir með könnuninni segir að oft hafi verið erfitt að átta sig á stefnu flokkanna þar sem orðalag sé á köflum loðið og stefna óskýr. Skýrust hafi hún verið hjá Sjálfstæðisflokki og Vinstri-grænum, en orðið óljósari eftir því sem nær dró miðju. Spurningarnar urðu á endanum ellefu, um mál eins og viðhorf til varnarmála, Evrópusambandsins og stóriðju svo eitthvað sé nefnt.

Höfundarnir leituðu til 22 flokksbundinna einstaklinga og fengu 19 þeirra þá niðurstöðu að þeir væru mest sammála sínum flokki. Könnunina segja þeir þó ekki bjóða upp á óvéfengjanlega niðurstöðu og að líta beri á hana sem hjálpartæki sem gefi vísbendingar um stjórnmálaskoðanir manns frekar en heilagan sannleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×