Innlent

Rausnarleg gjöf

Fimm lykilstjórnendur Kaupþings og Exista hafa ásamt eiginkonum sínum gefið Krabbameinsfélagi Íslands 120 milljónir króna.

Þetta eru Kaupþingsmennirnir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Robert Tchenquiz og Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir en eiginkonur þeirra eru Anna Lísa Sigurjónsdóttir, Arndís Björnsdóttir, Heather Bird Tchenquiz, Þuríður Reynisdóttir og Guðrún Rut Eyjólfsdóttir.

Þetta er langstærsta gjöf sem Krabbameinsfélaginu hefur borist en um hana var tilkynnt á aðalfundi félagsins í gær. Gefendur segjast vilja með þessu stuðla að framförum í leit að brjóstakrabbameini en gjafaféð rennur til kaupa á þremur tækjum til stafrænnar brjóstamyndatöku.

Gjafaféð kemur til viðbótar styrkjum sem Glitnir og Kaupþing höfðu gefið til kaupa á tveimur tækjum. Hvert tæki kostar 40 milljónir króna.

Leitarstöðin þarf samtals fimm tæki til þess að skapa heildstætt og samtengt kerfi, þrjú tæki til notkunar í höfuðstöðvunum í Skógarhlíð í Reykjavík, eitt tæki sem notað verður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og hið fimmta verður nýtt sem fartæki á landsbyggðinni. Áætlað er að hug- og vélbúnaður sem tengist tækjunum fimm muni kosta um 130 milljónir króna.

Nýja tæknin gefur möguleika á nákvæmari greiningu lítilla æxla og gagnast aðferðin best í brjóstum yngri kvenna og hjá þeim sem hafa þéttan brjóstvef. Auk þess nota þessi tæki mun minni geislaskammta en áður þekkist.

Brjóstakrabbamein er algengasti illkynja sjúkdómur kvenna á Íslandi

.

.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×