Innlent

Reykjavík meðal bestu borga fyrir skemmtiferðaskip

Ferðum skemmtiferðaskipa til borgarinnar fjölgar stöðugt.
Ferðum skemmtiferðaskipa til borgarinnar fjölgar stöðugt. MYND/Frétt ehf / Stefán Karlsson
Reykjavík er meðal 11 borga sem tilnefndar eru í ár til verðlaunanna World Travel Awards sem besti áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip í Evrópu, "Europe's Leading Cruise Destination".

Borgirnar sem tilnefndar eru ásamt Reykjavík eru Amsterdam, Aþena, Cannes, Kaupmannahöfn, Dubrovnik, Lissabon, Osló, Sankti Pétursborg, Stokkhólmur og Feneyjar. Ferðaskrifstofur um allan heim velja besta áfangastaðinn ásamt aðilum úr skemmtiferðaskipageiranum. Árið 2006 var Kaupmannahöfn valin besti áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip í Evrópu.

Tilnefning Reykjavíkur er mikil viðurkenning á því starfi sem fer fram við markaðssetningu borgarinnar sem aðlaðandi áfangastaðar fyrir skemmtiferðaskip, en skemmtiferðaskipum til borgarinnar fjölgar stöðugt. Um það bil 80 skemmtiferðaskip eru nú þegar bókuð til Reykjavíkur í sumar og áætlaður farþegafjöldi er á bilinu 60-70 þúsund. Það stefnir því í enn eitt metárið í móttöku farþega skemmtiferðaskipa til landsins.

Verðlaunin verða afhent í Newcastle, Englandi, þann 9. október næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×