Innlent

Bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu tryggt

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Íslendingar hafa tryggt sér þrjú hundruð þúsund skammta af bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu en samningur þess efnis var undirritaður í morgun. Sóttvarnarlæknir segir mikilvægt að Íslendingar hafi tryggt sér bóluefnið þar sem barist verði um hvern skammt ef til heimsfaraldurs kemur.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra undirritaði í morgun samning við lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline um að fyrirtækið tryggi Íslendingum 300 þúsund skammta af bóluefni gegn heimsfaraldri til ársins 2011.

Bólusetja þarf hvern mann tvisvar og því aðeins hægt að bólusetja hundrað og fimmtíu þúsund einstaklinga. Þar sem ekki er vitað fyrirfram hvaða inflúensustofn komi til með að valda næsta heimsfaraldri má gera ráð fyrir að það taki um þrjá til sex mánuði að framleiða bóluefnið. Sóttvarnarlæknir telur að á þeim tíma hafi tiltekinn fjöldi veikst og því ættu skammtarnir að duga Íslendingum.

Sóttvarnarlæknir segir hættuna á heimsfaraldri viðvarandi og ef til hans kæmi myndi hann breiðast hratt út og hafa mikil áhrif á samfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×