Innlent

Jón Ásgeir fékk þriggja mánaða dóm

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa útbúið tilhæfislausan kreditreikning í bókhaldi Baugs sumarið 2001. Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, fékk níu mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir bókhaldsbrot.

Jón Ásgeir Jóhannesson var sakfelldur fyrir bókhaldsbrot. Brot hans fellst í því að hafa látið Jón Gerald Sullenberger gefa út rangan og tilhæfislausan kreditreikning frá Nordica og færa hann í bókhald Baugs sumarið 2001. Reikningurinn hljóðaði upp á 62 milljónir króna og var í bókhaldinu talinn til tekna. Jón Ásgeir var aðeins sakfelldur fyrir þennan lið ákærunnar en alls var ákæra setts saksóknara í nítján liðum. Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, var einnig sakfelldur fyrir þátt sinni í að reikningurinn var færður inn í bókhald Baugs.

Jón Gerald var einnig ákærður í þessum ákærulið en ákærunni á hendur honum var vísað frá þar sem hann naut ekki réttinda sakbornings við lögreglurannsókn málsins líkt og lög gera ráð fyrir.

Alls var Tryggvi sakfelldur í fjórum ákæruliðum. Tryggvi var dæmdur fyrir bókhaldsbrot samkvæmt 14. ákærulið sem laut að sölu á hlutabréfum í Arcadia til Kaupþings en kaupin áttu sér ekki stað. Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa látið færa tilhæfulausa kredityfirlýsingu frá færeyska félaginu SMS í bókhald Baugs og fyrir tilhæfulausa bókhalsfærslu sem snéri að sölu á hlutabréfum til Kaupþings upp á 330 milljónir króna.

Dómari vísaði alls tíu ákæruliðum frá en þar var meðal annars ákært fyrir brot á hlutafélagalögum með meintum ólöglegum lánveitingum.

Á meðal þeirra brota sem þeir Tryggvi og Jón Ásgeir voru sýknaðir af er meintur fjárdráttur þeirra til að fjármagna skemmtibátinn Thee Viking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×