Innlent

Hræðileg vonbrigði

Höskuldur Kári Schram skrifar
Arndís Björnsdóttir, talsmaður eldri borgara og öryrkja.
Arndís Björnsdóttir, talsmaður eldri borgara og öryrkja. MYND/HH

Arndís Björnsdóttir, talsmaður Baráttusamtaka eldri borgara og öryrkja, segir oddvita listans í Norðausturkjördæmi ekki hafa haft samráð við sig áður en hætt var við framboð í kjördæminu. Arndís segir niðurstöðuna hræðileg vonbrigði.

„María hefur ekkert talað við mig. Þetta eru hræðileg vonbrigði," sagði Arndís Björnsdóttir, talsmaður Baráttusamtaka eldri borgara og öryrkja, í samtali við Vísi.

María Óskarsdóttir, oddiviti samtakanna í Norðausturkjördæmi, lýsti því yfir í dag að fallið hefði verið frá framboðslista samtakanna í kjördæminu. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér segir að framboð í aðeins einu kjördæmi sé langt frá því að vera skynsamlegt og muni skila littlum árangri. Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði hún engan fjárhagslegan grundvöll fyrir framboðinu.

Upphaflega stóð til að Baráttusamtökin myndu bjóða fram lista í öllum kjördæmum fyrir komandi alþingiskosningar. Samtökin voru hins vegar of sein að skila inn listum í öllum kjördæmum nema Norðaustri.

Arndís segist líta svo á að gróflega hafi verið brotið gegn framboðinu við afgreiðslu dómsmálaráðuneytis og yfirkjörstjórnar á framboðslistum samtakanna. Hún segir ráðuneytið hafa látið fulltrúa samtakanna fá ófullnægjandi upplýsingar um hvernig haga bæri skilum á framboðslistum. Þess vegna blasi nú við að ekkert verði að framboði Baráttusamtakanna fyrir komandi kosningar. „Ef við komum ekki okkar stefnumálum að núna þá verðum við margefld í næstu lotu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×