Innlent

Ástæðulaus gagnrýni segir fjármálaráðherra

Fjármálaráðherra segir að ekki sé verið að þrengja að starfsemi fjármálafyrirtækja í landinu með nýlegri reglugerð, eins og stjórnarformaður Straums Burðaráss fullyrti í gær. Þá tæki fjármálaráðuneytið ekki við tilskipunum frá Seðlabankastjóra en hlustað væri eftir sjónarmiðum hans rétt eins og sjónarmiðum fjármálafyrirtækjanna.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá harðri gagnrýni Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Straums Burðaráss á reglugerð frá því í síðasta mánuði, sem hann taldi þrengja svo að fjármálafyrirtækjum, að eigendur Straums Burðaráss íhuguðu jafnvel að flytja starfsemina úr landi.

Björgólfur sagði stjórnvöld skulda fjármálafyrirtækjunum skýringar. Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir ekki hafa staðið á skýringunum. Vegna mismunandi sjónarmiða um reikningsskil fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum, hefði hann talið rétt að skilgreina starfsrækslugjaldmiðilinn þannig að hann væri sá gjaldmiðill sem væri hlutfallslega stærstur í viðskiptum fyrirtækjanna.

Árni M Mathiesen fjármálaráðherra sagði ráðuneytið ekki vera að reyna að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtæki taki upp annan gjaldmiðil en krónuna. "Þá hefðum við ekki staðið fyrir því að setja lögin sem heimila þetta. Ég á ekki von á því að þetta hafi teljandi ef nokkur áhrif á fyrirtæki sem hafa áhuga á að gera upp í sínum starfrækslugaldmiðli, sé hann annar en krónan," sagði fjármálaráðherra.

Gefið hefur verið í skyn að fjármálaráðuneytið sé að fara eftir óbeinum tilskipunum frá Davíð Oddssyni seðlabankastjóra í þessum efnum. Fjármálaráðherra segir að í ráðuneytinu sé hlustað eftir sjónarmiðum Davíðs eins og forráðamanna fjármálafyrirtækjanna, en ráðuneytið taki sínar eigin ákvarðanir.

Eins og staðan er í dag telur fjármálaráðherra ekkert að óttast varðandi áhuga fyrirtækja á að gera upp í öðrum gjaldmiðlum en krónunni, þótt það geti orðið áhyggjuefni undir vissum kringumstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×