Innlent

Vinstri grænir næst stærstir

Vinstrihreyfingin - grænt framboð er næststærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokki samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Innan við sjö prósentum munar á fylgi flokkanna tveggja. Búast má við því að tónninn í garð vinstri grænna eigi eftir að harðna nokkuð í ljósi þessa.

Stjórnarflokkarnir mælast nú samanlagt með 43 prósent en stjórnarandstaðan með tæp 56.

Ríkisstjórnin væri því fallin væri þetta niðurstaða kosninganna.

Framsóknarflokkur mælist með 8,5 prósent, bætir örlítið við sig frá síðustu könnun, Sjálfstæðisflokkur með 34,5, missir fylgi frá síðustu könnun. Frjálslyndir mælast með 6,4 prósent aðeins meira en síðast, Samfylkingin stendur í stað með 21,7 og Vinstri grænir bæta verulega við sig og mælast með 27,7 prósenta fylgi.

Til samanburðar má geta þess að gamla Alþyðubandalagið náði sögulegu hámarki í kosningum árið 1978 þegar það fékk tæplega tuttugu og þriggja prósenta fylgi. Þá fékk gamli Alþýðuflokkurinn tuttugu og tvö prósent. Samanlagt fylgi VG og Samfylkingar er talsvert hærra nú og ekki langt frá hreinum meirihluta.

Það má eiga von á því að tónninn í garð vinstri grænna fari að harðna nokkuð í ljósi þessa en stjórnarliðar hafa einkum beint spjótum sínum að Samfylkingunni fram að þessu.

Það ber nýtt við í þessari könnun að einungis tæp átta prósent eru óákveðin en óákveðnum hefur fækkað hratt milli nýjustu kannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×