Innlent

Stjórnarandstaðan hafnar auðlindafrumvarpi ríkisstjórnarinnar

Stjórnarandstaðan leggst gegn því að frumvarp um breytingu á stjórnarskránni sem formenn stjórnarflokkanna leggja fram og snýst um náttúruauðlindir landsins verði þjóðareign verði tekið til umræðu á Alþingi í dag. Geir H. Haarde forsætisráðherra sakar stjórnarandstöðuna hins vegar um að fíflast með alvarleg mál.

Deilt var um nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni sem formenn stjórnarflokkanna leggja fram og snýst um að náttúruauðlindir landsins verði þjóðareign, við upphaf þingfundar í morgun.

Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem kvaddi sér hljóðs um störf þingsins og gerði frumvarpið, sem kynnt var fyrir fjölmiðlum í gær, að umtalsefni. Sagði hún að formenn stjórnarflokkanna hefðu boðað formenn stjórnarandstöðuflokkanna á fund klukkan 18 í gær. Hafi stjórnarandstaðan talið að kynna ætti frumvarpið og leita eftir samstarfi um það.

Hins vegar hafi formenn stjórnarflokkanna verið að leita eftir afbrigðum á þingstörfum til þess að geta tekið málið á dagskrá í dag. Ingibjörg Sólrún sagði að stjórnarandstaðan hefði hafnað því í gær að veita afbrigði fyrir því að málið yrði tekið á dagskrá Alþingis og áskilið sér rétt til að fara yfir málið með sérfræðingum sínum. Hún sagði að að fengnum útskýringum sérfræðinga væri annað tveggja ljóst; annað hvort væri verið að stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign með varanlegum hætti til einkaaðila, eða þá að útvatna hugtakið þannig að það hafi ekki nokkra einustu merkingu eða gildi fyrir okkar stjórnskipan.

Geir H. Haarde forsætisráðherra minnti á að stjórnarandstaðan hefði boðið fram aðstoð sína fyrr í vikunni. Sagði hann það fullkomið rugl að kvartað væri yfir því að ekki yrði haft samstarf við stjórnarandstöðuna í málinu. Hann hefði aldrei á þingmannaferli sínum vitað til þess að stjórnarandstaðan hafi komið á fund og óskað eftir skýringum á frumvarpi. Til þess væri fyrsta umræða um frumvarp í þinginu. Sagði hann stjórnarandstöðuna sýna nú hversu mikil alvara væri með boði sínu um samstarf og sakaði hana um að fíflast með alvarlegt mál.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði ákvæðið sem koma ætti inn í stjórnarskrána ekki þýða annað en að festa ætti í sessi núverandi kvótakerfi. Í tillögunni væri hvergi vikið að atvinnufrelsisákvæði eða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ögmundur Jónasson, þingflokssformaður Vinstri - grænna, sagði að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu væru ekki trúverðug og að ekki ætti að hafa þennan háttinn á til að afla fylgis í aðdraganda kosninga eins og framsóknarmenn væru að reyna að gera. Sagði hann stjórnarandstöðuna hafa boðist til að lengja þingið til að ræða málið. Sagði hann enn fremur grundvallaratriði að það ríkti festa um atriði stjórnarskrárinnar en svo væri ekki varðandi frumvarp formanna stjórnarflokkanna. Hætta gæti skapast um eignarréttarlega stöðu auðlindanna.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist staðfesta orð Geirs um að efnt hefði verið til fundar með formönnum stjónarandstöðuflokkanna í gær til þess að bjóða samstarf í málinu. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar nú sýndu að tilboð þeirra um samstarf í málinu væri pólitískur plötusláttur og að stjórnarandstaðan hefði orðið uppvís að óheildinum.

Deilur hafa svo haldið áfram, meðal annars undir liðnum fundarstjórn forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×