Innlent

Dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun

Mynd/GVA

Hæstiréttur dæmdi í dag hálffimmtugan karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun og staðfesti þar með dóm Héraðsdóms. Auk þess var manninum gert að greiða fórnarlambi sínu 700 þúsund krónur í miskabætur. Nauðgunin var framin haustið 2005.

Dæmdi og kærasti fórnarlambsins leigðu sitt hvort herbergið í sömu íbúð. Þau voru tvö ein heima að horfa á sjónvarpið þegar hann nauðgaði henni. Hún var ekki nema tæplega 16 ára þegar brotið átti sér stað. Hann hafði gefið henn bjór og sígarettur og leitað svo á hana.

Hún sagði í skýrslutöku í barnahúsi að hún hafði lamast af hræðslu og grátið allan tímann meðan maðurinn fékk sínu fram. Dæmdi bar því fyrir sig við skýrslutöku að hann myndi ekki eftir því að hafa haft samfarir við stúlkuna vegna áfengisneyslu. Með sömu rökum neitaði hann sök fyrir dómi.

Samkvæmt niðurstöðum blóð- og þvagrannsókna var dæmdi ofurölvi þegar nauðgunin var framin. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að þó þau hafi einungis verið tvö til frásagnar þyki framburður hennar trúverðugur og studdur gögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×