Innlent

Vita deili á öllum fjórum

Þrír menn, af þeim fjórum sem gengu í gildru fréttaskýringaþáttarins Kompáss þegar þeir héldu sig vera að fara á fund þrettán ára stúlku, hafa gefið sig fram við lögreglu, sem telur sig einnig vita hver sá fjórði er.

Kompás lagði inn auglýsingu inn á vefinn Einkamál.is, í nafni 13 ára stúlku, til að leita svara við þeirri spurningu hvort menn sem hefðu samband við stúlkuna á Netinu myndu freista þess að koma á fund hennar. Í þættinum í gærkvöld mátti sjá fjóra menn ganga í þá gildru. Í þættinum voru andlit þeirra hulin. Fyrir sýningu þáttarins fór lögregla fram á upplýsingar um það hverjir þessir fjórir menn væru og fékk í hendur myndskeið af þeim. Að sögn Björgvins Björgvinssonar aðstoðaryfirlögregluþjons eru þrír menn af þeim fjórum, sem sýndir voru við þá iðju að reyna að hitta stúlkuna, að þeir héldu, búnir að gefa sig fram við lögreglu og lögregla telur sig vita hver fjórði maðurinn er. Mennirnir verða yfirheyrðir en framhaldið er óljóst, enda málið einstakt að því leiti að notast var við virka tálbeitu, sem lögreglu er óheimilt, og mennirnir hafa ekki brotið af sér þótt atferli þeirra sýni fram á einbeittan brotavilja. Að sögn Boga Nilsson ríkissaksóknara má ætla að mál fjórmenningana muni rata til hans, þar sem ákvörðun verður tekin um framhaldið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×