Innlent

Bætur skertar eða felldar niður að óbreyttu

Lífeyrisbætur ríflega 2000 öryrkja eiga að falla niður eða lækka, að óbreyttu, um mánaðarmótin.

Lífeyrissjóðir frestuðu þessum aðgerðum í október en sá frestur rennur út fyrsta febrúar.

Í desember var því beint til fulltrúa fjórtán lífeyrissjóða, í stjórn Greiðslustofu lífeyrissjóðanna, að fresta skerðingum fram til sumarsins en niðurstaða liggur enn ekki fyrir. Öryrkjabandalagið telur hins vegar að félagsmenn þess þurfi ekkert að óttast.

Tekjukönnun Greiðslustofu Lífeyrissjóðanna leiddi í ljós að tólf hundruð lífeyrisþegar voru það vel staddir að mati sjóðanna að réttlætanlegt væri að fella alveg niður greiðslur til þeirra og lækka bætur ellefuhundruð annarra. Það mat byggði sjóðurinn á athugun á tekjum öryrkja í þrjú ár fyrir örorku en þær tekjur eru síðan framreiknaðar samkvæmt neysluvísitölu til dagsins í dag. Ekki þótti rétt ef í ljós kom að öryrkjar hefðu hærri tekjur eftir að hafa verið úrskurðað á örorku en áður en veikindin knúðu dyra. Ákvörðun um að fella niður eða skerða bætur hefur hinsvegar verið frestað vegna andstöðu, nú síðast í október, enda hefur verið á það bent að ekki sé hægt að miða við þrjú ár fyrir öroku því það sé einmitt tíminn þar sem margir hafi stopular tekjur vegna veikinda. Þá sé eðlilegra að miða við launavísitölu en neysluvísitölu en þar getur munað allt að sjötíu prósentum.

Matthildur Hermannsdóttir framkvæmdastjóri Greiðslustofu Lífeyrissjóðanna segir að hundrað og sextíu þeirra sem hafi óskað eftir frekari athugun hafi fengið mál sitt tekið upp á því með hliðsjón af því að miða við lengri tíma fyrir örorku eða allt að átta ár. Það sé hinsvegar ekki hægt að miða við annað en neysluvísitölu þar sem samþykktir sjóðanna geri ráð fyrir því. Hún segir að skerðingarnar eiga að taka gildi fyrsta febrúar en stjórnir sjóðanna séu að fjalla um málið.

Öryrkjabandalagið telur ekkert að óttast enda sé vilji innan sjóðanna til að breyta þessu.

Matthildur Hermannsdóttir segir hinsvegar að enginn sjóður hafi enn tilkynnt um að hann ætli að falla frá þessum skerðingum. Ákvörðun allra fjórtán lífeyrissjóðanna muni væntanlega liggja fyrir upp úr tuttugasta janúar eða fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×