Innlent

Reykjavíkurborg sýknuð af kröfum ættingja Kjarvals

Kristbjörg Stephensen, lögmaður Reykjavíkurborgar, svara spurningum fréttamanna eftir dóminn.
Kristbjörg Stephensen, lögmaður Reykjavíkurborgar, svara spurningum fréttamanna eftir dóminn. MYND/GVA
Reykjavíkurborg var í Héraðsdómi Reykjavíkur sýknuð af öllum kröfum ættmenna Jóhannesar Kjarvals listmálara. Erfingjarnir krörðust þess að Reykjavíkurborg léti af hendi rúmlega 5000 málverk og yfir eitt þúsund bækur sem borgin telur að listamaðurinn hafi gefið sér árið 1968.

Í stefnu erfingja Jóhannesar var því haldið fram að engin skjöl væru til sem sönnuðu að listmálarinn hefði gefið Geir Hallgrímssyni, þáverandi borgarstjóra, munnlegt loforð um að allar eigur hans ættu að vera í umsjá Reykjavíkurborgar.

Fram kemur í dómnum að meginágreiningur aðila hafi snúist um það hvort Jóhannes hefði gefið Reykjavíkurborg munina og bent á að ekki lægi fyrir skriflegur gjafagerningur þess efnis frá Jóhannesi Kjarval.

Reykjavíkurborg byggði vörn sína á að gjöfin hefði verið gefin og við henni tekið á fundi Kjarvals og Geirs 7. nóvember 1968 og vitnað var til dagbókar Guðmundar Alfreðssonar og skýrslu hans fyrir dómi þar um. Þá hafi ættingjar Kjarvals verið viðstaddir opnun Kjarvalsstaða í mars 1974 þar sem fram hafi komið bæði í ræðu þáverandi borgarstjóra, Birgis Ísleifs Gunnarssonar, sem og í sýningarskránni sem gefin hafi verið út í tilefni af opnunarsýningunni að um gjöf væri að ræða.

Í dómnum segir að óumdeilt sé að Reykjavíkurborg hafi nú í hartnær 40 ár haft óslitið eignarhald á gjöf Kjarvals og hafi frá upphafi umráða sinna á verkum og munum Kjarvals umgengist hana sem sína eign og sýnt þá afstöðu sína í verki. Í ljósi hins stórkostlega tómlætis stefnanda að gera ekki fyrr en nú, mörgum áratugum eftir að Reykjavíkurborg hafi fengið umráð yfir gjöf Kjarvals, tilkall til hennar, sé það stefnanda að sanna að hefð samkvæmt hefðarlögum hafi ekki komist á.

Þegar litið sé til gagna þeirra sem lögð hafa verið fyrir dóminn, einkum afdráttarlauss framburðar Guðmundar Alfreðssonar og skýrslu Þorvaldar Þorvaldssonar, um að Jóhannes S. Kjarval hafi gefið Reykjavíkuborg umrædda gjöf þykir fram komin sönnun þess að Jóhannes Kjarval hafi gefið stefnda muni þá sem stefnendur krefja um í máli þessu og telja eign dánarbús hans. Samkvæmt því var Reykjavíkurborg sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×