Enski boltinn

Bentley lætur baulið ekki hafa áhrif á sig

NordicPhotos/GettyImages

Vængmaðurinn David Bentley spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Englendinga um helgina þegar hann kom inn sem varamaður í sigri liðsins á Ísrael 3-0. Nokkrir ensku áhorfendanna bauluðu á Bentley, en hann segir það ekki hafa varpað skugga á besta dag lífs síns.

Þegar Bentley var skipt inn á völlinn mátti heyra nokkra áhorfendur baula á hann, en það er vegna deilna hans við Stuart Pearce þjálfara U-21 árs landsliðsins. Bentley gaf ekki kost á sér í 21 árs liðið í sumar og bar við þreytu, en er nú kominn í A-landsliðshópinn.

"Þetta var besti dagur lífs míns og ég læt ekki smá baul hafa áhrif á það. Ég var í sjöunda himni og átti alveg eins von á smá bauli. Það sem mestu máli skipti var að stuðningsmennirnir voru á bak við liðið í leiknum. Ég sé ekki eftir því að hafa dregið mig út úr 21 árs liðinu og ég held að mikið af fólki hafi misskilið mig þegar ég útskýrði mál mitt á sínum tíma. Ég hafði áhyggjur af því að brenna út í nóvember eða desember ef ég tæki þátt í leikjum U-21 árs liðsins og ef ég finn til hins sama eftir að hafa spilað með aðalliðinu - mun ég ekki fara á EM næsta sumar," sagði Bentley í samtali við The Sun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×