Enski boltinn

Áætlun Chelsea er draumórar

Arsenal horfir fram á bjarta tíma á Emirates leikvanginum
Arsenal horfir fram á bjarta tíma á Emirates leikvanginum NordicPhotos/GettyImages

Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, gat ekki stillt sig um að skjóta á grannana í Chelsea þegar Arsenal birti frábærar afkomutölur sínar í gær. Hann segir áætlanir Chelsea um að verða stórveldi í Evrópuknattspyrnunni vera draumórakennda.

Arsenal tilkynnti í gær að velta félagsins væri komin yfir 200 milljónir punda og Arsene Wenger stóra hefur verið lofað ansi vænum upphæðum til að styrkja lið sitt á næstunni.

"Ég vil ekki vera að hrauna yfir Chelsea, en menn verða að viðurkenna að Manchester United og Liverpool eru líklega stærstu nöfnin í enskum fótbolta. Að Chelsea-mönnum skuli detta það í huga að þeir geti allt í einu velt þessum liðum úr sessi er broslegt. Það er ekki að fara að gerast," sagði Hill-Wood.

Chelsea hefur gefið það út að áform félagsins séu að "mála heiminn bláan" í litum félagsins, en segja má að þeim áformum hafi eilítið verið frestað með brotthvarfi Jose Mourinho. Aðeins 25,000 áhorfendur sáu Chelsea spila við Rosenborg í Meistaradeildinni á dögunum.

"Það kom mér á óvart hve fáir áhorfendur mættu að sjá Chelsea í Meistaradeildinni í síðustu viku. Stuðningsmannakjarni okkar varð líklega til á fjórða áratugnum og hefur haldist og vaxið frá föður til sonar á þeim tíma. Menn eru 100 ár að byggja upp stórveldi en ekki nema 100 mínútur að eyðileggja það.," sagði Hill-Wood.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×