Enski boltinn

Berkovic hraunar yfir Avram Grant

Berkovic er ekki hrifinn af ráðningu Avram Grant hjá Chelsea
Berkovic er ekki hrifinn af ráðningu Avram Grant hjá Chelsea NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum ísraelski landsliðsmaðurinn Eyal Berkovic sparaði ekki stóru orðin þegar hann var spurður út í ráðningu landa síns Avram Grant hjá Chelsea. Grant var maðurinn sem batt enda á landsliðsferil Berkovic á sínum tíma og leikmaðurinn er ekki búinn að gleyma því.

"Mér býður við ráðningu Grant hjá Chelsea og mér fannst hún afar ósmekkleg. Maður gat séð það fyrir að Chelsea og Avram myndu moka undan besta stjóra í sögu félagsins og líklega einum mesta persónuleika í knattspyrnunni í dag. Ég veit hvernig Grant er og stundum þarf maður að hugsa um sjálfan sig," sagði Berkovic í samtali við Sun. Hann hélt áfram.

"Vel gert, Grant. Þetta tókst hjá þér. Þú þarft ekki að vera besti stjóri í heimi til að ná árangri hjá Chelsea. Þú átt peninga og góða leikmenn og það eina sem þú þarft að gera til að ná árangri er að vera góður sálfræðingur. Ég er viss um að hann á eftir að ná árangri en það eina sem skyggir á það er að þín verður alltaf minnst sem mannsins sem ýtti Jose Mourinho úr starfi," sagði Berkovic. Hann er ekki búinn að gleyma hvernig var að vera leikmaður.

"Ég man hvernig er að vera leikmaður og ég skil hvaða stöðu leikmenn Chelsea eru komnir í. Það er ekki eðlilegt að allt í einu sé búið að ráða mann í starfið sem er vinur eigandans - mann sem tekur við af einum besta stjóra í heimi. Þetta er ekki mjög faglega gert. Hvað haldið þið að þeir Lampard, Terry og Drogba séu að hugsa núna? Hver er þessi Avram? Þér tókst það herra Grant, gangi þér vel," sagði Berkovic, sem á sínum tíma lék m.a. með West Ham á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×