Enski boltinn

Eggert minnkar við sig hjá West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Magnússon og Björgólfur Guðmundsson.
Eggert Magnússon og Björgólfur Guðmundsson.

Í dag var það tilkynnt að nokkrar breytingar yrðu gerðar á stjórnkerfi enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham sem er í eigu Íslendinga.

Eggert Magnússon verður áfram stjórnarformaður félagsins en mun nú koma minna að daglegum rekstri félagsins.

"Þetta hefur lengi staðið til. Nú þegar staða félagsins er góð, reksturinn stöðugur og útlitið bjart er góður tími til að keyra þessar breytingar í gegn," sagði Eggert í samtali við Vísi.

Hann segir að síðan hann kom til félagsins hafi verið gríðarlega mikið á hans könnu og því sé þetta kærkomin breyting.

"Þetta er búið að vera afar fjörlegur tími. Það hefur mikið gengið á, eins og stjóraskipti, fallslagurinn og allt Tevez-málið. Það verður áfram mikið að gera en nú gefst manni tími til að anda aðeins á milli."

Meðal þeirra verkefna sem Eggert mun nú geta einbeitt sér betur að er þróun nýs heimavallar West Ham.

"Ég verð áfram stjórnarformaður og stjórnin tekur allar stórar ákvarðanir sem að félaginu koma, eins og leikmannakaup."

Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu West Ham segir Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður eignarhaldsfélags West Ham, að hann sé stoltur af því hverju hafi verið áorkað síðan að þeir komu að félaginu.

"Ég er líka þakklátur Eggerti Magnússyni fyrir það starf sem hann hefur unnið í þágu félagsins. Það er nú mikilvægt að sinna langtímamarkmiðum okkar sem er að verða eitt af sterkustu félögum Englands sem berst um titla bæði innanlands sem og í Evrópu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×