Innlent

Ekki verið að gefa út óútfyllta ávísun

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir samningana við Norðmenn og Dani í varnar- og öryggismálum tímabæra jafnvel þótt Bandaríkjaher hefði verið hér enn á landi. Hann segir stjórnvöld ekki vera að gefa út óútfyllta ávísun þó kostnaður Íslendinga af samkomulaginu sé ekki enn ljós.

Forsætisráðherra sagði fimm mánuði frá því að hann og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hefðu hrint viðræðunum af stað og málið hefði gengið hratt því aðilar hafi fundið sameiginlega hagsmuni.

Þá sagði Geir varnarsamninginn við Bandaríkin tryggja varnir landsins á ófriðartímum en eftirlit á hafi og lofti á friðartímum yrði í höndum Norðmanna og Dana.

Geir sagði að þetta samkomulag hafi verið tímabært jafnvel þótt Bandaríkjaher hefði verið enn hér á landi. Geir benti á að viðræðum við Dani og Norðmenn í varnar- og öryggismálum væri lokið en viðræðum við Kanadamenn og Breta yrði haldið áfram. Þá hefðu Þjóðverjar lýst yfir áhuga á samstarfi og þeir myndu senda hingað hóp til að kanna aðstæður.

Um skiptingu kostnaðar sagði Geir að hver borgaði sitt. Ísland væri gistiríkið sem skaffaði aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir þjóðirnar og stæði straum af kostnaði við það. Hér væru ekki á ferðinni óútfylltar ávísanir. Það færi eftir umfangi æfinga en ekki væri um að ræða þann kostnað sem fylgdi því að halda úti flota herþotna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×