Enski boltinn

Ferguson ætlar að nota fleiri leikmenn

Ferguson er orðinn hungraður í að ná lengra í Meistaradeildinni og ætlar að dreifa álaginu á leikmenn mun meira í vetur
Ferguson er orðinn hungraður í að ná lengra í Meistaradeildinni og ætlar að dreifa álaginu á leikmenn mun meira í vetur NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segist ætla að nota mun fleiri leikmenn hjá Manchester United á næstu leiktíð en hann gerði í fyrra til að dreifa álaginu í hópnum. United hefur eytt nærri 50 milljónum punda í leikmenn í sumar en Ferguson segist hafa búist við að sú tala yrði hærri.

"Ég hélt reyndar að við myndum eyða enn meiri peningum í leikmenn en við höfum gert. Það er mikið af peningum í úrvalsdeildinni í kjölfar sjónvarpssamninganna og ég reiknaði því sennilega með meiri eyðslu. Það var frábært fyrir okkur að fá til okkar unga menn eins og Nani og Anderson á þessum tímapunkti, því nú fá þeir tækifæri til að þroskast og aðlagast spilamennskunni hér í landi," sagði Ferguson. Hann ætlar að vera duglegri að dreifa álaginu á leikmenn sína á næsta tímabili.

"Nani og Anderson munu ekki koma við sögu í öllum leikjum okkar í vetur en þeir munu fá að spila mikið og það er góð fjárfesting í framtíðinni. Á tíunda áratugnum fengu margir að spila hjá okkur þegar við vorum með í öllum keppnum, en það gátum við ekki í fyrra. Við höfðum tækifæri til að vinna þrefalt á síðustu leiktíð en þá höfðum við ekki næga breidd til að dreifa álaginu. Ég sá dálítið eftir því að hafa ekki verið aðeins sjálfselskari og sleppt því að lána alla ungu mennina okkar í burtu, því ég hefði ekki hikað við að láta þá spila meira. Það kostaði okkur svo þegar við lentum í öllum þessum meiðslum," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×