Innlent

Metfjöldi á fundi í Grímsey

Fjölmennasti fundur sem sögur fara af í Grímsey var haldinn þar í gær. Þótt íbúarnir séu aðeins eitthundrað talsins mættu samt 140 manns á fundinn, sem sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi stóðu fyrir. Þar voru forystumenn flokksins gagnrýndir fyrir að vilja ekki ræða Evrópusambandsaðild en annars virtist Reykjavíkurflugvöllur brenna heitast á fundarmönnum. Þá var spurt hvenær göng kæmu út í Grímsey.

Skýringin á þessum mikla fjölda í Grímsey var auðvitað að sú að fólk fjölmennti úr öðrum byggðarlögum. Flestir komu með ferjunni Sæfara, aðrir með flugvélum og einkabátum. Heimamenn fagna öllum frambjóðendum. Steingrímur J. Sigfússon var nýlega þar á ferð, Samfylkingin kom í fljúgandi út í eyna um síðustu helgi og nú voru það sjálfstæðismenn sem mættu til að halda almennan fund um tækifærin á Eyjafjarðarsvæðinu.

Í félagsheimilinu töldu menn yfir 140 manns og fyrrverandi oddviti sagðist ekki muna eftir svo fjölmennum fundi þar. Kvenfélag Grímseyjar tók vel á móti fundargestum. Hlaðborðið í fundarhléi svignaði undan brauðréttum og öðrum kræsingum og eldri Grímsseyjar léku undir meðan gestir gæddu sér á veitingunum. Fyrsta athugasemd úr sal að loknum framsöguerindum sneri að því að umræða um Evrópusambandsaðild væri þögguð niður í Sjálfstæðisflokknum. En það var líka spurt um göng út í Grímsey. Það er langt í það, var svar Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Það var lítið rætt um fisk á fundinum en mest um samgöngur og Reykjavíkurflugvöll. Framsögumennirnir áttu það allir sammerkt að lýsa mikilvægi flugvallarins og raddir úr sal voru á sama máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×